Stuðningur við nemendur

Sveitafélagið hefur gert samning við fjölskyldudeild Akureyrarbæjar varðandi einstaklingsþjónustu, þ.e. vegna barna sem þurfa sérstaka aðstoð. Leikskólaráðgjafi fjölskyldudeildar er Elva Haraldsdóttir. Leikskólaráðgjafi frá skóladeild Sesselía Sigurðardóttir, kemur 2-3 sinnum yfir árið og fylgist með starfinu og starfsfólkið getur fengið ráðgjöf hjá henni varðandi börnin. Foreldrar geta einnig leitað til hennar vegna leikskóladvalar barna sinna. Hrafnhildur Sigurðardóttir leikskólafulltrúi kemur 1-2 yfir árið og veitir faglega ráðgjöf.

 

Seinfærir nemendur

Engir tveir einstaklingar eru eins, sem betur fer. Sumir þarfnast meiri aðstoðar en aðrir og sér Valsárskóli þeim nemendum fyrir stuðningskennslu. Skólinn hefur yfir að ráða ákveðnum fjölda kennslustunda á viku til stuðnings og er þeim stundum deilt niður á bekki. Þessi úthlutun kennslustunda er í reglulegri endurskoðun allt skólaárið. Stuðningskennari fer inn í bekk og veitir þeim nemendum aðstoð sem það þurfa en stundum er þó heppilegt að taka nemendur út og láta þá vinna að ákveðnum verkefnum einum eða í litlum námshópum í námsveri. Mikil áhersla er lögð á samstarf á milli bekkjarkennara og stuðningskennara til að gera stuðningskennsluna markvissa og árangursríka.

Svalbarðsstrandarhreppur hefur gert samning við fjölskyldudeild Akureyrarbæjar um greiningar- og sérfræðiþjónustu. Einn sérkennari starfar við skólann og einnig sinna aðrir kennarar þeim nemendum sem þurfa sérstakan stuðning til lengri eða skemmri tíma í samræmi við þær greiningar sem gerðar eru. Nemenda er aldrei vísað í greiningu án samráðs við foreldra/forráðamenn. Sama má segja um stuðningstíma. Lestrarskimun er lögð fyrir í 9. bekk og talnalykill í 3. og 6. bekk.

 

Bráðgerir nemendur

Í Valsárskóla er almennt komið til móts við bráðgera nemendur með einstaklingsmiðuðu námi, dýpkun og hraðferð. Í einstökum tímum og greinum er beitt aðgreiningu og í nokkrum tilvikum flýtingu. Aðgreining í stuttan tíma er gerð af mati kennara en ákvörðun um flýtingu er tekin af skólastjóra í ljósi niðurstaðna samræmdra prófa og greiningar sérfræðinga á félagslegri og tilfinningalegri stöðu.

Til að koma til móts við bráðger börn hefur skólakerfið aðallega beitt fjórum úrræðum. Þær eru: Námsaðgreiningeinstaklingsmiðað námdýpkun, hraðferð og flýting. Áhrif þeirra eru misjöfn eftir úrræðum.

Námsaðgreining: Er fyrirkomulag sem reynir að setja nemendur með svipaðan námárangur saman í kennsluhópa. Námsaðgreiningu má flokka í nokkur form s.s. námsgetuskiptingu innan námshópa, kennslu í sérskólum eða námskeið fyrir bráðger börn.

Einstaklingsmiðað nám: Bráðgerir nemendur kjósa frekur einstaklingamiðað nám en aðrir námsmenn. Einstaklingsmiðað nám er stefna íslenska grunnskólans. Ef slíkt er ekki veitt getur það leitt til neikvæðra áhrifa líkt og skólaleiða.

Dýpkun og hraðferð: Er ein gerð af einstaklingsmiðuðu námi. Bráðger börn eru börn sem eru fljótari að ná valdi á hæfnissviði en jafningjar þeirra. Þau eiga auðveldara með að læra, eru sjálfstæðir námsmenn og fara sínar eigin leiðir til að tileinka sér námsefnið. Þess vegna er mikilvægt að þau fái tækifæri til að dýpka skilning sinn á námsefninu eða fara hraðara í gegnum það en aðrir nemendur.

Flýting: Flýting er eitt úrræði til að mæta bráðgerum nemendum. Þrjú algengustu form flýtingar í skólum eru: Að hefja skólagöngu fyrr, að hefja nám í framhaldsskóla fyrr og að sleppa bekkjum.

Grunnskólalögin 2008 kveða á um að börn skulu hefja skyldunám á því almanaksári sem þau verða 6 ára en foreldrar geta sótt um að barn hefji skólagöngu fyrr og getur skólastjóri veitt slíka heimild að fenginni umsögn sérfræðiþjónustu sem metur alhliða þroska barnsins og gefur álit sitt á slíkri flýtingu.

Þegar metið er hvort nemandi sem þegar hefur hafið nám í grunnskóla þarf á flýtingu að halda hafa samræmd próf verið nýtt við greiningu bráðgera nemenda. Stuðningsmenn annarra greiningarviðmiða en samræmdra prófa viðurkenna að nemendur geta sýnt afburðahæfni á mörgum sviðum sem samræmd próf ná ekki að greina. Þetta viðhorf kallar eftir annarri greiningaraðferð, margvíslegum og áræðanlegum mælikvarða frekar en að stóla eingöngu á samræmd próf.

Samræmd próf hafa þann kost umfram önnur próf sem mæla námslega hæfni að þau sýna stöðu nemenda miðað við jafnaldra þeirra og er því góður mælikvarði á það hvernig nemendur standa miðað við jafnaldra þeirra. Samræmd próf hafa það einnig fram yfir mat kennara og skóla að þau eru hlutlægari og því lausari við bjögun. Eitt af áhyggjuefnum varðandi þátt kennarans er að kennarar eru óþarflega tengdir og nánir nemendum.

Bráðger börn getur einnig staðið til boða að sleppa bekkjum. Samkvæmt lögum um grunnskóla er mögulegt fyrir grunnskólanemendur sem hafa góða og mikla námsgetu að ljúka grunnskólanámi á skemmri tíma en 10 árum eins og ætlað er. Þá er mikilvægt að hafa í huga að nemendur þurfa að ljúka öllu námi grunnskóla samkvæmt aðalnámskrá áður en þeir útskrifast úr grunnskóla á skemmri tíma en 10 árum. Mikilvægt er að börn sem útskrifast fyrr úr grunnskóla þurfa að vera þess megnug að takast á við nám í framhaldsskóla, námslega, tilfinningalega og félagslega.

Í Valsárskóla eru börn hvött til að nýta hæfileika til fulls og ef þau hafa hæfileika, þroska og getu til að útskrifast fyrr úr skólanum er allt gert til að aðstoða nemendur við það.