Höfuðlús

Verklagsreglur Álfaborgar/Valsárskóla varðandi lúsina!

Á skólaþingi í Álfaborg/Valsárskóla í nóvember 2016 var samþykkt að ef lús finnst í nemanda þá fá allir aðrir nemendur deildarinnar bréf heim þar sem foreldrar kvitta fyrir að hafa kembt nemandanum. Þeir nemendur sem koma ekki með blaðið undirritað geta ekki mætt í skólann fyrr en þeir hafa verið kembdir.

Þegar lús kemur upp í bekk/jum þá sendir skólastjóri bréf heim (rafrænt) til allra nemenda skólanstigsins þar sem lúsin kom upp og foreldrar beðnir um að skoða og kemba. Einnig eru sendar heim leiðbeiningar um lúsameðferð. Jafnframt þessu er sent  bréf (rafrænt) heim til nemenda þess skólastigs þar sem ekki fannst lús og tilkynnt að það hafi komið upp lús í skólanum.

 

Höfuðlús– Pediculosis humanus capitis

Til eru þrjár gerðir af lúsum sem sýkja menn, höfuðlús, flatlús og búklús. 

Höfuðlús er lítið skorkvikindi sem getur lifað sníkjulífi í mannshári á höfði og nærist á því að sjúga blóð úr hársverðinum. Hún er ekki talin bera neina sjúkdóma og því skaðlaus hýslinum. Allir geta smitast en staðfest smit er algengast hjá 3-12 ára börnum. Höfuðlúsarsmit er skráningarskyldur sjúkdómur.

Lífsferill

Fullorðin höfuðlús er 2-3 millimetrar að stærð (svipað og sesamfræ), gráhvít eða ljósbrún á lit. Lífsferill hennar hefst í eggi sem kallað er nit. Á sex til tíu dögum klekst út úr nitinni, unglús (nymph), pínulítil, sem á 9-12 dögum þroskast yfir í fullorðna karl- eða kvenlús. Kvenlúsin festir nitina á hár og getur hún verpt allt að tíu eggjum á dag. Lúsin hefur sex fætur og sérhannaðar klær til að komast um í hárinu og getur skriðið 6-30 sentimetra á mínútu. Hún getur ekki flogið, stokkið né synt. Lífslengd höfuðlúsa er allt að 30 dagar en ef þær detta úr hárinu út í umhverfið fjærri hlýjum, rökum og blóðríkum hársverðinum, veslast þær upp og deyja á 15-20 klukkustundum.

Smitleiðir

  • Lúsin getur farið á milli hausa ef bein snerting verður frá hári til hárs í nægilega langan tíma til að hún geti skriðið á milli en hún getur hvorki stokkið, flogið né synt.
  • Höfuðlús sem fallið hefur út í umhverfi verður strax löskuð og veikburða og getur þ.a.l. ekki skriðið á annað höfuð og sest þar að.
  • Ólíklegt er talið að smit verði með fatnaði og innanstokksmunum en ekki er þó hægt að útiloka að greiður, burstar, húfur og þess háttar, sem notað er af fleiri en einum innan stutts tíma, geti hugsanlega borið smit á milli.

 Einkenni smits

  • Engin. Tveir af hverjum þremur sem smitaðir eru af höfuðlús hafa engin einkenni.
  • Kláði. Einn af hverjum þremur fær kláða. Kláðinn stafar af ofnæmi, sem myndast með tímanum (frá nokkrum vikum að þremur mánuðum), gegn munnvatni lúsarinnar sem hún spýtir í hársvörðinn þegar hún sýgur blóð.
  • Eymsli og/eða sýking. Kláðinn getur orðið mikill og húðin roðnað og bólgnað þegar viðkomandi klórar sér og í einhverjum tilfellum geta komið sár sem geta sýkst af bakteríum.

Greining

Greining er einungis gerð með nákvæmri kembingu höfuðhárs með lúsakambi (0,2 mm milli teina). Kemba þarf vel frá hársverði að enda hársins og fara þannig yfir allt höfuðhárið. Til að auðvelda kembingu getur verið þægilegra að bera hárnæringu í hárið áður en kembt er. Algengast er að lúsin haldi sig í hári í hnakkagróf og bak við eyrun. Finnist lifandi lús þarf að meðhöndla.

Meðferð

  • Kembing. Hægt er að uppræta höfuðlús með daglegri kembingu með lúsakambi í 14 daga
  • Lúsadrepandi efni.  Að setja viðurkennt lúsadrepandi efni í hárið hefur lengi verið notað til að losna við lús. Gæta verður að réttri notkun, nota ráðlögð efni (t.d. ekki lúsasjampó) og fara nákvæmlega eftir notkunarleiðbeiningum. Alltaf verður að kemba samhliða bæði til að greina hvort lýs eru í hárinu og til að meta árangur meðferðar.  Slík samsett meðferð tekur einnig 14 daga. Lúsadrepandi efni (Hedrin; Prioderm lausn í alkóhóli eða vatnslausnsett) er borið í hárið og látið þorna í hárinu í 8-12 klst og kembt á 4 daga fresti. Efnið sett aftur í hárið að 7 dögum liðnum.

Mikilvægt er að kemba alla í fjölskyldunni, leikfélaga og skólafélaga samtímis og meðhöndla þá sem eru með höfuðlús til að koma í veg fyrir endursmit.