Námskrá fyrir nýbúakennslu

Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 29. gr. segir, að menntun allra barna skuli miða að því að "móta virðingu fyrir foreldrum barnsins, menningararfleið þess, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands sem það býr í og þess er það kann að vera upprunnið frá og fyrir öðrum menningarþáttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs".

Íslenskukennsla fyrir nýbúa þarf að stuðla að því að þeir:

  • öðlist leikni í að tala og skrifa íslensku sem gerir þeim kleift að stunda nám með íslenskum nemendum á  sama aldri

  • þjálfist í íslenskri málnotkun svo að þeir geti átt eðlileg samskipti við Íslendinga og tekið virkan þátt í íslensku menningar og atvinnulífi
  • fái fræðslu um íslenskt samfélag, íslenska siði, menningu og landshætti
  • eigi kost á að lesa bókmenntir sem styrkja sjálfsmynd þeirra og auka hugarflug
  • fái staðgóða þekkingu á uppbyggingu íslensks máls
  • einnig er nauðsynlegt að nýbúar fái tækifæri til að kynna menningu sína fyrir
  • §öðrum nemendum

Í nýbúakennslu er mikilvægt að sett séu markmið og ítarleg námsáætlun gerð bæði til lengri og skemmri tíma. Nauðsynlegt er að allir geri sér grein fyrir að mikill munur er á íslenskukennslu fyrir nýbúa og kennslu erlendra tungumála. (Sjá rit Ingibjargar Hafstað : Um kennslu nýbúa)

Lögð hefur verið áhersla á sem mesta samvinnu skóla og heimilis og einnig að samhengi sé milli þess sem fjallað er um með nýbúanum í öllu starfi skólans. Bent hefur verið á notkun samskiptabóka eða blaða sem t.d. sérgreinakennarar skrá í það helsta sem gert var í kennslustundinni þannig að bekkjarkennarinn eða aðrir kennarar geti þá haldið áfram þar sem frá var horfið varðandi ýmis hugtök, í nýju samhengi.


 

Meginþættir í íslenskunámi nýbúa

Málnotkun

Leggja þarf áherslu á að kenna heiti í nánasta umhverfi barnsins strax í byrjun, bæði á heimili þess og í skóla. Kenna þarf algengar setningar sem koma þeim að gagni í náminu;

  • Ég skil ekki.
  • Ég skil sumt ekki allt.
  • Geturðu sagt þetta aftur?
  • Hvað þýðir það?
  • Viltu ekki tala svona hratt?
  • Viltu tala hægar?
  • Geturðu útskýrt hvað þetta þýðir?
  • Geturðu teiknað það?

Nemandinn finnur fljótt þörf fyrir að geta gefið upplýsingar, verið sammála eða ósammála, afsakað sig, þakkað fyrir sig, spurst fyrir um, farið fram á, lofað, fengið leyfi.  Hann þarf að læra hugtök yfir stærð, aldur, liti, samanburð og tíma.

Búa má til aðstæður sem líklegt er að barnið lendi í og æfa það í að nota algeng orðasambönd og setningar sem tengjast þeim.  Dæmi um aðstæður; að spyrja til  vegar, fara í leikfimi, fara í sund, kvarta yfir kennara sínum eða félaga í bekknum, gera innkaup, hitta nýja krakka.

Að sjálfsögðu er ekki kennd hefðbundin málfræði, þ.e. þjálfun í að beygja no. so. eða lo. heldur ætti námið að afmarkast við tiltekin atriði í byrjun, svo  sem nokkur algeng föst orðasambönd. Dæmi um orðasambönd sem æskilegt er að kenna strax í byrjun eru; Ég er að ...., ég er búinn að ....., ég ætla að ....... nái barnið tökum á þeim  getur það tjáð sig í nútíð og þátíð án þess að hafa vald á beygingu sagnorða. Nefnt hefur verið að ekki sé til of mikils mælst að barnið læri allt að tíu sagnir á dag í byrjun ef námið er byggt markvisst upp. Þetta er að sjálfsögðu einstaklingsbundið og nauðsynlegt að hafa í huga að barn frá Evrópu er líklegt til að ná fyrr tökum á málinu en barn frá Asíu.

Margar íslenskar námsbækur eru allt of erfiðar fyrir nýbúa.  Mikilvægt er að kennarar taki saman efni tímans í einföldu máli þar sem öll helstu atriðin koma fram. Hægt er að láta barnið endursegja til að ganga úr skugga um að það hafi skilið.  Rétt er að benda á að mikið af almennu námsefni er til á hljóðbókum sem hentugt er að nota með nýbúum eftir að efnið hefur verið útskýrt.

Börn sem hafa íslensku að móðurmáli heyra hana talaða allt frá fæðingu.  Þau fá tíma til að skynja, skilja, íhuga og tjá sig á málinu áður en þau læra að lesa það. Þegar þau hefja lestrarnám þekkja þau megnið af orðunum sem mæta þeim við lesturinn.  Hins vegar læra margir nýbúar ekki að lesa á móðurmáli sínu heldur á máli sem þeir hafa lítið vald á.  Samkvæmt niðurstöðum rannsókna er mælt með ef nokkur kostur er að nýbúinn læri fyrst að lesa á móðurmáli sínu.

Flestir nýbúar þurfa sérstaka aðstoð við námið.  Hugtakanám og skilningur er undirstaða alls náms og á það þarf að leggja ríka áherslu allt frá upphafi.

Fjöldi rannsókna sýnir að sjálfstraust og sterk sjálfsmynd eru eiginleikar sem gagnast mönnum hvað best í námi og komið hefur í ljós að ekki þarf nauðsynlega að vera fylgni milli greindarvísitölu og árangurs í tungumálum.  Nemandi sem á auðvelt með að tileinka sér nýtt tungumál hefur að jafnaði mikið sjálfstraust og er djarfur og ófeiminn.  Hins vegar hefur komið í ljós að mörgum nýbúum, sem hafa mælst með háa greindarvísitölu en hafa jafnframt lélega sjálfsmynd, hefur ekki tekist að tileinka sér tungumál gestgjafalandsins eins fljótt og við mætti búast. Lærður maður sagði að það væri útbreiddur misskilningur að fólk lærði af mistökum sínum, staðreyndin væri sú að fólk lærði fyrst og fremst af velgengni sinni og sigrum. Í þessari fullyrðingu felst sannleikur sem allir kennarar ættu að hafa í huga. Þ.e. nemendur læra mest af sigrum sínum.